Grænmetislasagna

Stórt form
250 gr. ósoðnar linsur, um 500 gr. soðnar
50 gr. laukur, saxaður
400 gr. niðursoðnir tómatar
2 stk. hvítlauksgeirar
10 gr. basil, ferskt (1 tsk. þurrkað)
svartur pipar
vatn
1 stk. kúrbítur, zuccini, skorinn í teninga
1 stk. paprika, skorin í teninga
2 stk. tómatar, skornir í báta
1 tsk. bergmynta (oregano)
1 stk. hvítlauksgeiri
salt og pipar
10 plötur lasagna blöð
1 dós kotasæla
3 dl. rifinn ostur

Byrjað er á því að sjóða linsurnar. Þá er laukurinn svitaður í potti ásamt hvítlauknum, basilinu og piparnum.

Niðursoðnu tómötunum er bætt út í ásamt baununum og smá vatni. Suðunni er hleypt upp og síðan er þetta sett til hliðar.

Steikið kúrbítinn og paprikuna á pönnu þar til það mýkist.  Bætið tómötunum við ásamt hvítlauknum, bergmyntunni,
saltinu og piparnum. Raðið til skiptis í eldfast mót lasagna blöðunum, baunamaukinu og grænmetinu, endið á kotasælunni og osti. Bakið við 150°C í um 45 mínútur eða þar til toppurinn er gullinbrúnn.

Hægt er að elda allt í lasagna daginn áður. Passið þegar það er eldað að kjarnhitinn fari örugglega yfir 75°C í miðjunni.

Lasagna er alltaf gott að bera fram með salati, pestó, aioli, tómatsalati og brauði. Það eru mjög skiptar skoðanir um hversu mörg lög eiga að vera í lasagna, myndið ykkar eigin skoðun og rökstyðjið að svona sé þetta í sveitahéruðum Ítalíu.